Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hengill.nu

Eftirfarandi bréf er fengið af heimasíðunni hengill.nu, en þar má lesa nánar um skrækkelig umhverfisspjöll sem fyrirhuguð eru í næsta nágrenni höfuðborgar. Allir grænir fingur eru beðnir um að skrifa undir bréfið með réttri dagsetningu og senda það annaðhvort á neðangreindar adressur eða tölvupóstföng:

Skipulagsstofnun: skipulag@skipulag.is
Ölfushreppur: olfus@olfus.is
Afrit til umhverfisráðherra: tsv@althingi.is

 

Skipulagsstofnun
Laugavegi 166
150 Reykjavík

og

Sveitarfélagið Ölfus
Hafnarbergi 1
815 Þorlákshöfn

21. október 2007

Efni: Athugasemd við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir - Bitruvirkjun, allt að 135 MW jarðvarmavirkjun
í Sveitarfélaginu Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi.

Ég undirritaður/undirrituð mótmæli fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum Orkuveitu Reykjavíkur
á svokölluðu Hengilssvæði með eftirfarandi atriði í huga:

  1. Hengilssvæðið og dalirnir austan, vestan og sunnan þess hafa lengi verið ein helsta útivistarparadís
    íbúa höfuðborgarsvæðisins og er skilgreint sem útivistarsvæði, staðfest af umhverfisráðherra í janúar
    2005. Nú, þegar verið er að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu svo gríðarlega sem raun ber vitni,
    byggja á öllum auðum blettum og fækka útivistarsvæðum í þéttbýli, er brýnna en nokkru sinni að íbúar
    höfuðborgarsvæðisins eigi kost á að njóta óspilltrar náttúru í hæfilegri dagsferðarfjarlægð frá heimilum
    sínum. Þetta svæði er eitt örfárra í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem hægt er að ganga um í
    friði og ró, njóta ótrúlega fjölbreyttrar náttúrufegurðar fjarri amstri dagsins og síaukinni bílaumferð á
    höfuðborgarsvæðinu.

    Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta íbúa höfuðborgarsvæðisins og
    afkomendur þeirra þessum lífsgæðum til þess eins að þjóna hagsmunum erlendra auðhringa í áliðnaði
    eða annarri stóriðju. Þar af leiðandi mótmæli ég einnig að hluta svæðisins verði breytt í iðnaðarsvæði
    skv. fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi Ölfuss.
  2. Ein helsta tekjulind íslensku þjóðarinnar nú er ferðaþjónusta. Erlendir ferðamenn koma fyrst og fremst
    til Íslands til að njóta þeirrar náttúrufegurðar sem landið hefur upp á að bjóða. Við auglýsum landið
    sem óspillta náttúruperlu og á þeim svæðum sem það loforð stenst standa ferðamenn á öndinni yfir
    þeirri fegurð sem við þeim blasir. Hengilssvæðið er einn þessara staða og vinsælt að fara þangað í
    dagsferðir með erlenda ferðamenn, ýmist gangandi eða á hestbaki. Margir ferðamenn gera stuttan
    stans á landinu og þá er nauðsynlegt að geta sýnt þeim óspillta náttúru sem næst
    höfuðborgarsvæðinu.

    Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta ferðaþjónustuna tækifæri til að sýna
    erlendum ferðamönnum óspillta náttúru í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og legg til að svæðið verði
    friðað til frambúðar.
  3. Framkvæmdaraðili virkjana á Hengilssvæðinu er Orkuveita Reykjavíkur, en hún er einnig sá aðili sem
    lét gera umhverfismat og ber kostnað af því.  Þetta eru ámælisverð vinnubrögð þar sem stór
    hagsmunaaðili erí raun dómari í eigin máli. Ég mótmæli slíkum vinnubrögðum harðlega og geri þá kröfu
    að óvilhallir aðilar sjái alfarið um mat á umhverfisáhrifum og íslenska ríkið beri kostnaðinn.
    Umhverfismat sem framkvæmt er og kostað af hagsmunaaðila framkvæmdar getur aldrei verið marktækt.
  4. Einnig geri ég alvarlega athugasemd við kynningu og tímalengd hennar þegar svo stórar framkvæmdir
    eru annars vegar sem snerta nánasta umhverfi og lífsgæði ríflega helmings íslensku þjóðarinnar.
    Sex vikna frestur til athugasemda er allt of skammur og allt kynningarferlið til þess gert að sem fæstir
    veiti málinu athygli og hafi skoðanir á því.

Með von um árangur,


_________________________
Nafn, kt.
Heimilisfang


BJARGANDI ÍSLANDI!!!

Nýr hópur mótmælenda mun nú stíga fram á sjónarsvið íslenskra augna og vonandi kæta þau, enda myndarlegt fólk á ferðinni. Í hópnum eru aðeins þrifalegir, vel máli farnir, vel útlítandi einstaklingar með vel snyrt hár og næmt auga fyrir íslenskri þjóðarsál og hennar persónuleika(röskunum). Í hópnum eru engir útlendingar, enn sem komið er. Allt talar fólkið því og skilur góða, rótgróna og lýtalausa íslensku án allra erlendra áhrifa, eins og nafn samtakanna sýnir svo glöggt: Bjargandi Íslandi!

 

Í hópnum eru engir níhilistar með einföldu í-i. Hópurinn er ekki í foreldrauppreisn - í raun eiga flestir meðlimir í góðum samskiptum við fyrrverandi uppalendur sína. Uppistaða samtakanna samanstendur ef til vill af einhverjum svokölluðum grænmetisætum, en margar þeirra borða íslenskan fisk með bestu lyst, enda góð uppspretta lífsnauðsynlegu fitusýranna ómega 3 og 6. Í hópnum eru aðeins rólyndir einstaklingar sem elska sjálfa sig einkar mikið og er þar með annt um eigið líf - því er ljóst að ekki verður stundað klifur og annað adrenalínsport í nafni: Bjargandi Íslandi!

 

Innan samtakanna eru flestir í fullu starfi, hvort sem listagyðjan, Mammon, eða formlegri vinnuveitendur ráða þar för. Hópurinn mun því eðli máli samkvæmt ekki geta státað af innskoti í aðalfréttum sjónvarps á hverju kvöldi og mun gæta þess eftir fremsta megni að hrófla ekki við stolti, skapbrestum eða almennri sálarheill þjóðar - að minnsta kosti ekki til verri vegar. Hópurinn hafnar ekki áli með öllu - álpappír getur t.d. verið nauðsynlegur við bökun kartaflna (ft. ef. no. kartafla getur líka verið án n, skv. ófrávíkjanlegri beygingarlýsingu yfirvaldsins), og ýmis konar eiturlyfjaneyslu, sem samtökin berjast þó ekki fyrir. Samtökin í heild hafa engan megnan ímugust á Davíð Oddsyni - Útvarp Matthildur var virðingarvert framlag til íslenskrar menningar. Félagsskapurinn ræðst ekki persónulega gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni - um hann hafa verið skrifaðar skemmtilegar bókmenntir, auk þess sem hann gengur gjarna í hlutverk boðbera hins svarta áróðurs, sem eyðileggur fyrir eigin málstað. Sú rulla verður þó alls ekki leikin af, og vonandi ekki bendluð við: Bjargandi Íslandi!

 

Forsprakkar samtakanna munu fyrst hefja málstað sinn á loft, með mótmælum næstkomandi laugardag, sem kenndur hefur verið við menningarnótt. Mótmælin verða friðsamleg með öllu - einkum listrænar uppákomur og vitrænar umræður - en verða þó til vonar og vara á fyrirfram óákveðnum stað (innan miðbæjar Reykjavíkur) og stund (innan 18. ágústs (et. ef. no. ágúst getur einnig verið án s, skv. fyrrnefndri beygingarlýsingu)). Þessum óþekktu breytum er haldið í jöfnunni til að forðast afskipti lögregluyfirvalda, sem eru þó velkomin að mæta og njóta. Engin menningarsótt, 2007 er í boði: Bjargandi Íslandi!  

 

Samtökin sem slík eiga hvorki pallbifreið, málningu, úðabrúsa, lása, tússpenna, trúðabúninga, útilegubúnað eða aðrar efnislegar eignir. Ef einhver vill ánafna samtökunum fjármunum veraldlegum efnislegum gæðum skal viðkomandi hafa samband með því að senda póst á bjargandiislandi(hjá)gmail.com. Samtökin þiggja þó ekki styrk frá hverjum sem er, og verða hugsanlegar styrkveitingar teknar til skoðunar og metnar - öllum þeim sem óska eftir að styrkja samtökin verður þó svarað innan sjö virkra daga frá því að umsókn berst. Að sjálfsögðu má einnig styrkja samtökin í verki, eða einfaldlega með skráningu, og í þeim efnum gildir fyrrnefnt netfang. Einnig má skrá sig í gegnum gestabókina hér til hliðar, en stjórn samtakanna áskilur sér fullan rétt til að hafna umsóknum sem berast.

 

 

Við erum ferskt afl í íslensku þjóðlífi!

Við komum til landsins með knörrum en ekki Norrænu!

Við höfnum áframhaldandi gegndarlausri sóun á Móður náttúru! 

Við komum vel fyrir!

Við höfum megnan ímugust á endalausum blóðfórnum á altari Mammons!

Við lyktum vel!

Við höfum illan bifur á  undirlægjuhætti og hóruskap!

Við tökum tillit til einstæðra mæðra, helgarfeðra, einræðisherra, einfættra, einyrkja, helgarferða, nærsýnna, fjarsýnna og jafnvel þröngsýnna einstaklinga!

Við reynum ávallt að höfða til lægsta samnefnarans til að glata ekki trúverðugleika okkar við mótmæli!

Við erum góð í stærðfræði, íslensku og öðrum samræmdum fögum!

Við erum: Bjargandi Íslandi!    

 

Að allra síðustu segjum við eins og Ómar Ragnarsson á lokasprettinum fyrir kosningar:

Við erum ekki að grínast!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband