16.8.2007 | 10:16
BJARGANDI ÍSLANDI!!!
Nýr hópur mótmælenda mun nú stíga fram á sjónarsvið íslenskra augna og vonandi kæta þau, enda myndarlegt fólk á ferðinni. Í hópnum eru aðeins þrifalegir, vel máli farnir, vel útlítandi einstaklingar með vel snyrt hár og næmt auga fyrir íslenskri þjóðarsál og hennar persónuleika(röskunum). Í hópnum eru engir útlendingar, enn sem komið er. Allt talar fólkið því og skilur góða, rótgróna og lýtalausa íslensku án allra erlendra áhrifa, eins og nafn samtakanna sýnir svo glöggt: Bjargandi Íslandi!
Í hópnum eru engir níhilistar með einföldu í-i. Hópurinn er ekki í foreldrauppreisn - í raun eiga flestir meðlimir í góðum samskiptum við fyrrverandi uppalendur sína. Uppistaða samtakanna samanstendur ef til vill af einhverjum svokölluðum grænmetisætum, en margar þeirra borða íslenskan fisk með bestu lyst, enda góð uppspretta lífsnauðsynlegu fitusýranna ómega 3 og 6. Í hópnum eru aðeins rólyndir einstaklingar sem elska sjálfa sig einkar mikið og er þar með annt um eigið líf - því er ljóst að ekki verður stundað klifur og annað adrenalínsport í nafni: Bjargandi Íslandi!
Innan samtakanna eru flestir í fullu starfi, hvort sem listagyðjan, Mammon, eða formlegri vinnuveitendur ráða þar för. Hópurinn mun því eðli máli samkvæmt ekki geta státað af innskoti í aðalfréttum sjónvarps á hverju kvöldi og mun gæta þess eftir fremsta megni að hrófla ekki við stolti, skapbrestum eða almennri sálarheill þjóðar - að minnsta kosti ekki til verri vegar. Hópurinn hafnar ekki áli með öllu - álpappír getur t.d. verið nauðsynlegur við bökun kartaflna (ft. ef. no. kartafla getur líka verið án n, skv. ófrávíkjanlegri beygingarlýsingu yfirvaldsins), og ýmis konar eiturlyfjaneyslu, sem samtökin berjast þó ekki fyrir. Samtökin í heild hafa engan megnan ímugust á Davíð Oddsyni - Útvarp Matthildur var virðingarvert framlag til íslenskrar menningar. Félagsskapurinn ræðst ekki persónulega gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni - um hann hafa verið skrifaðar skemmtilegar bókmenntir, auk þess sem hann gengur gjarna í hlutverk boðbera hins svarta áróðurs, sem eyðileggur fyrir eigin málstað. Sú rulla verður þó alls ekki leikin af, og vonandi ekki bendluð við: Bjargandi Íslandi!
Forsprakkar samtakanna munu fyrst hefja málstað sinn á loft, með mótmælum næstkomandi laugardag, sem kenndur hefur verið við menningarnótt. Mótmælin verða friðsamleg með öllu - einkum listrænar uppákomur og vitrænar umræður - en verða þó til vonar og vara á fyrirfram óákveðnum stað (innan miðbæjar Reykjavíkur) og stund (innan 18. ágústs (et. ef. no. ágúst getur einnig verið án s, skv. fyrrnefndri beygingarlýsingu)). Þessum óþekktu breytum er haldið í jöfnunni til að forðast afskipti lögregluyfirvalda, sem eru þó velkomin að mæta og njóta. Engin menningarsótt, 2007 er í boði: Bjargandi Íslandi!
Samtökin sem slík eiga hvorki pallbifreið, málningu, úðabrúsa, lása, tússpenna, trúðabúninga, útilegubúnað eða aðrar efnislegar eignir. Ef einhver vill ánafna samtökunum fjármunum veraldlegum efnislegum gæðum skal viðkomandi hafa samband með því að senda póst á bjargandiislandi(hjá)gmail.com. Samtökin þiggja þó ekki styrk frá hverjum sem er, og verða hugsanlegar styrkveitingar teknar til skoðunar og metnar - öllum þeim sem óska eftir að styrkja samtökin verður þó svarað innan sjö virkra daga frá því að umsókn berst. Að sjálfsögðu má einnig styrkja samtökin í verki, eða einfaldlega með skráningu, og í þeim efnum gildir fyrrnefnt netfang. Einnig má skrá sig í gegnum gestabókina hér til hliðar, en stjórn samtakanna áskilur sér fullan rétt til að hafna umsóknum sem berast.
Við erum ferskt afl í íslensku þjóðlífi!
Við komum til landsins með knörrum en ekki Norrænu!
Við höfnum áframhaldandi gegndarlausri sóun á Móður náttúru!
Við komum vel fyrir!
Við höfum megnan ímugust á endalausum blóðfórnum á altari Mammons!
Við lyktum vel!
Við höfum illan bifur á undirlægjuhætti og hóruskap!
Við tökum tillit til einstæðra mæðra, helgarfeðra, einræðisherra, einfættra, einyrkja, helgarferða, nærsýnna, fjarsýnna og jafnvel þröngsýnna einstaklinga!
Við reynum ávallt að höfða til lægsta samnefnarans til að glata ekki trúverðugleika okkar við mótmæli!
Við erum góð í stærðfræði, íslensku og öðrum samræmdum fögum!
Við erum: Bjargandi Íslandi!
Að allra síðustu segjum við eins og Ómar Ragnarsson á lokasprettinum fyrir kosningar:
Við erum ekki að grínast!
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.